Dagana 7. og 8. september 2024 fer fram Fjallkonuhátíð í Skagafirði. Fjölbreytt dagskrá með áhugaverðum erindum um baðstofulíf og búningaþróun á 19 öld, þjóðbúningasýningu, þjóðbúningamessu, kynnisferð um sögustaði, heimsókn í Glaumbæ, myndatökum og söng.
Fjallkonuhátíðin er haldin í tilefni 80 ára afmælis íslenska lýðveldisins. Hún er tileinkuð þremur einstaklingum sem settu mark sitt á þróun íslenskra kvenbúninga á 19. öld. Sigurður „málari“ Guðmundsson, frá Hellulandi í Hegranesi var þjóðernisrómantíker sem unni fögru handverki. Undir áhrifum gömlu faldbúninganna fór Sigurður að leita heimilda um búninga og handverk. Hann skráði m.a. frásögn um einstakan faldbúning sem Guðrún Skúladóttir frá Ökrum saumaði og seldur var til Englands 1809. Í samstarfi við konur lagði hann til breytta útgáfu af faldbúningi, skautbúning, táknmynd íslensks þjóðernis. Samstarfskona Sigurðar í Skagafirði Sigurlaug Gunnarsdóttir frá Ási í Hegranesi saumaði skautbúning eftir fyrirmynd Sigurðar, þann elsta sem varðveist hefur. Fyrir áhuga Sigurðar og hvatningu þróuðust kvenbúningarnir inn í nýjan tíðaranda 19. aldar. Skautbúningurinn fékk hlutverk í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga, þjóðbúningur borinn af stoltum konum sem Sigurður hvatti til dáða er hann sagði: „af yðar mynd er Ísland kallað „fjallkonan fríð““.
Dagskrá laugardagsins fer fram í Miðgarði, Varmahlíð og er öllum opin og ókeypis.
Dagskrá sunnudags hefst með messu að Hólum í Hjaltadal. Eftir það verður farin rútuferð um sögustaði í Skagafirði. Skráning í ferðina og verð 4000.
Allir velkomnir og gestir eru hvattir til að mæta í þjóðbúningum báða dagana.
Að hátíðinni standa Þjóðbúningafélag Íslands, Pilsaþytur í Skagafirði og Annríki – Þjóðbúningar og skart. Sveitarfélagið Skagafjörður, Kaupfélag Skagfirðinga og Byggðasafn Skagafjarðar styrkja hátíðina og hafi bestu þakkir fyrir.
Dagskrá Fjallkonuhátíðar – gestir hvattir til að mæta í þjóðbúningum
Laugardagur 7. september – Miðgarður í Varmahlíð – frítt inn
13.00 Fjallkonuhátíð sett með ávarpi forystukvenna í Pilsaþyt og Þjóðbúningafélagi Íslands
13.20 Lífið í baðstofunni
Berglind Þorsteinsdóttir, safnstjóri Byggðasafns Skagfirðinga
Umræður og söngur
14.00 Kaffi
14.30 Konur „af yðar mynd er Ísland kallað „fjallkonan fríð““.
Guðrún Hildur Rosenkjær, klæðskeri og sagnfræðingur
Þjóðbúningkynning með þátttöku búningaklæddra gesta
Umræður og söngur
15.45 Þjóðbúningamyndataka
16.00 Þjóðbúningasýning skoðuð
17.00 Fjallkonuhátíð lokið á laugardegi
Sunnudagur 8. september 2024 – þjóðbúningamyndataka á sögustöðum
13-18.00 Þjóðbúningasýning í Miðgarði opin
11.00 Hólakirkja – Séra Halla Stefánsdóttir messar
12.30 Léttar veitingar á Hólum – hver og einn greiðir fyrir sig
14.00 Rútuferð um sögustaði í Skagafirði, fararstjórar Kristín Sigurrós Einarsdóttir og Níels Ómarsson. Komið við á Ökrum þar sem Guðrún Skúladóttir bjó. Ekið um Hegranes þar sem Sigurður málari og Sigurlaug Gunnarsdóttir bjuggu. Byggðasafnið í Glaumbæ heimsótt – frítt inn
Hámarksfjöldi 60 manns. Verð 4000 Skráning: pilsathytur@gmail.com
17.00 Komið til baka að Hólum – Fjallkonuhátíð lokið – Bestu þakkir