Skagfirðingar kunna vel að skemmta sér
Sést það best á Sælunni hvað lífið er
Allir fara í betri föt og bregða sér í dans
Með brennivín í maganum og dansa Óla skans
Giftir menn og giftar frúr
Ganga hjónaböndum úr
Hver og einn er frjáls og frír
Að faðma það sem hann langar í
Skagfirðingar eru fyrir hopp og hí.
Pilsaþytur í Skagafirði býður til dansveislu í Miðgarði fimmtudaginn 2. maí nk. frá klukkan 20 til klukkan 23. Stúlli og félagar frá Siglufirði spila fyrir dansi. Ekkert aldurstakmark verður og aðganseyrir aðeins 2.000 kr. Heitt á könnunni og opin sjoppa.
Við höfum nú reyndar hugsað okkur að halda okkur í hjónaböndunum og sleppa brennivíninu í maganum. En við ætlum svo sannarlega að dansa Óla skans og fara í betri fötin. Já það verður sko örugglega hopp og hí.
Við Pilsaþytskonur verðum uppábúnar og hvetjum fólk til að dusta nú rykið af upphlutum, peysufötum og öðrum sparifötum og stíga dans svo pilsin sviptist og faldar lyftist.
Vonumst til að sjá sem flesta.